Lífið

Keypti sögufræg húsgögn af Hótel Borg

Dýrgripir Einar festi kaup á nokkrum antíkstólum frá Hótel Borg, sumir þeirra eru hátt í áttatíu ára gamlir.
Dýrgripir Einar festi kaup á nokkrum antíkstólum frá Hótel Borg, sumir þeirra eru hátt í áttatíu ára gamlir.

„Þegar Kaninn fór tók hann með sér þau húsgögn sem eitthvað vit var í og kostuðu hugsanlega einhvern pening. Þegar mér buðust þessi antíkhúsgögn frá Hótel Borg og 2009-verðlaginu þá hikaði ég ekki eitt augnablik," segir Einar Bárðarson, athafnamaður með meiru, sem rekur Officera-klúbbinn á gamla varnarsvæðinu í Reykjanesbæ.

Hann komst heldur betur í álnir þegar honum voru boðnir forláta stólar og aðrir antíkmunir sem eitt sinn prýddu hið sögufræga hótel í miðborg Reykjavíkur. Einar hyggst nota þá í svokallað VIP-herbergi, þótt hann vilji ekki meina að það verði eingöngu fyrir einhverja útvalda.

„Nei, það eru eiginlega allir gestir klúbbsins sem eru útvaldir," segir Einar.

Stólarnir eru sumir hverjir frá fyrstu árum Hótels Borgar sem var byggt af hinum goðsagnakennda Jóhannesi Jósepssyni, sem var oftast kallaður Jóhannes á Borg.

„Já, einhverjir af þeim eru hátt í áttatíu ára gamlir og Jóhannes notaði þá sjálfur," segir Einar, kampakátur með kaupin enda ekki á hverjum degi sem menn fá slíka dýrgripa nánast beint upp í hendurnar.

Annars er dagskráin þétt í Officera-klúbbnum, svokallað Striks-kvöld verður í kvöld en eftir viku troða upp SSSól ásamt Sprengjuhöllinni og Lísu Idol-keppanda.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.