Innlent

Dæmdur fyrir vörslu á mjög grófu barnaklámi

MYND/Ingólfur

Karlmaður var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 12 mánaða fangelsi en þar af eru 9 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir vörslu barnakláms og dreifingu þess. Um var að ræða rúmlega tíu þúsund ljósmyndir og 86 hreyfimyndir sem samtals eru 31 klukkutími að lengd. Maðurinn sankaði efninu að sér á netinu og vistaði í tölvubúnaði sínum.

Maðurinn, sem játaði skýlaust brot sín, var einnig sakfelldur fyrir að dreifa barnaklámi með því að nota skráarskiptaforritið eMule. Við ákvörðun refsingar leit dómari til þess að hann játaði sök auk þess sem hann hefur ekki gerst sekur um refsiverðan verknað. Hins vegar lítur dómari til þess að um hafi verið að ræða mjög gróft barnaklám og því teljist brot hans stórfelld í skilningi hegningarlaga.

„Með hliðsjón af alvarleika brotsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Verður fullnustu 9 mánaða af refsingunni frestað og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum haldið ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga," segir í dómsorði auk þess sem tölvubúnaður mannsins var gerður upptækur. Þá skal maðurinn greiða málsvarnarlaun verjanda síns, tæpar 150 þúsund krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×