Erlent

Bandaríkjamenn í haldi Írana

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ali Khameini, æðsti leiðtogi Írans.
Ali Khameini, æðsti leiðtogi Írans.
Talið er að þrír bandarískir ferðamenn hafi verið teknir höndum af varðliðum í Íran.

Mennirnir þrír voru á göngu í fjöllunum í sjálfstjórnarhéraði Kúrda á landamærum Íraks og Írans, en óttast er að þeir hafi villst Íransmegin landamæranna.

Qadr Hamajan, hátt settur yfirmaður írakskra öryggissveita í nálægri borg, segir fjögurra manna hóp bandaríkjamanna hafa komið til svæðisins. Þrír þeirra hafi farið í gönguna meðan einn varð eftir vegna veikinda.

Sá eini hafi síðan fengið símtal frá hinum þremur og þeir sagst vera í vandræðum. Þeir séu í haldi hermanna sem hvorki tali kúrdísku né arabísku.

Bandaríkjamennirnir eru hvorki með túlk né lífverði með sér.

Bandarísk yfirvöld beita nú öllum tiltækum ráðum til að komast að hinu sanna um hvarf Bandaríkjamannanna.

Íranir hafa ekki tjáð sig um málið, en andað hefur köldu milli þarlendra yfirvalda og bandarískra um nokkurt skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×