Innlent

Átta mánuði tók að svara tölvupósti

Þótt uppsafnaður halli stofnunarinnar sé 108 milljónir króna á hún 144 milljónir  króna á sjóði vegna þess að markaðar tekjur stofnunarinnar hafa verið meiri en áætlaðar voru.
Þótt uppsafnaður halli stofnunarinnar sé 108 milljónir króna á hún 144 milljónir króna á sjóði vegna þess að markaðar tekjur stofnunarinnar hafa verið meiri en áætlaðar voru.
Átta mánuðir liðu frá því að eftirlitssviði Lyfjastofnunar var send fyrirspurn í tölvupósti seint á árinu 2008 og þar til svar barst nú í sumar. Stofnun­in hefur ekki enn skilað greinargerð vegna úttektar sem gerð var á ónefndu apóteki um mitt ár 2008.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkis­endurskoðunar eftir forkönnun á starfsemi Lyfjastofnunar. Megin­niðurstaða þeirrar forkönnunar er þó sú að ekki sé ástæða til að gera stjórnsýsluúttekt á starfsemi Lyfjastofnunar. Sú niðurstaða byggist á því meðal annars að Lyfjastofnun hafi fram á síðasta ár afgreitt þorra verkefna sinna innan tilsettra tímamarka. Undanfarin fjögur ár hafi einnig orðið framfarir hjá Lyfjastofnun í 95 prósentum þeirra tilvika sem hugað var að varðandi yfirstjórn, veitingu markaðsleyfa, lyfjagát og eftirlit.

Ríkisendurskoðun nefnir í skýrslu sinni sérstaklega að mikilvægt sé að Lyfjastofnun vandi vel til allra ákvarðana; gæti meðalhófs og sanngirni og byggi niðurstöður sínar á lögum. Þessi ábending er sett fram eftir að rakið er að síðustu fjögur ár hafi átján kærur vegna stjórnsýsluákvarðana Lyfjastofnunar verið sendar heilbrigðisráðuneytinu. Fjórar séu enn í vinnslu, fjórar hafi verið dregnar til baka eða vísað frá en af þeim tíu ákvörðunum sem eftir standa hafi ráðuneytið fellt fimm úr gildi.- pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×