Innlent

Enginn Íslendingur sameinar þjóðina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
UM 1% aðspurðra nefndu Ólaf Ragnar Grímsson sem sameiningartákn þjóðarinnar.
UM 1% aðspurðra nefndu Ólaf Ragnar Grímsson sem sameiningartákn þjóðarinnar.
Enginn núlifandi Íslendingur getur talist vera sameiningartákn þjóðarinnar ef marka má nýja könnun markaðskönnunarfyrirtækisins MMR. Samkvæmt könnuninni telja um 72% aðspurðra sig ekki geta nefnt einstakling í samfélaginu sem sé eða geti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina. Um 1% svarenda nefndu Ólaf Ragnar Grímsson sem sameiningartákn.

MMR kannaði hvort fólk gæti nefnt einhvern einstakling í samfélaginu sem væri eða gæti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina. Áberandi flestir, eða 72,1%, sögðu að þeim dytti enginn slíkur í hug. Af þeim sem nefndir voru fengu flestar tilnefningar þau Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, eða 4,5%, og Davíð Oddsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri 3,8%. Þar á eftir komu þau Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, en ríflega 2% svarenda nefndu annað hvort þeirra. Þá nefndu rétt um 1% svarenda þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins og Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Aðrir voru nefndir af færri en 1% svarenda.

Spurningin sem lögð var fyrir, tók hvorki tillit til þess hvort fólk styddi eða treysti einstaklingum sem nefndir voru, heldur eingöngu hvort fólk teldi að þeir væru eða gætu orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×