Innlent

Prófessor telur lán til félaga starfsfólks fara gegn lögum

Stjórnir bankanna brutu í bága við lög þegar þær seldu starfsmönnum sínum hluti í bönkunum í gegnum einkahlutafélög, að mati Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands.

Undantekning í hlutafélagalögum leyfir að starfsmönnum sé lánað til kaupa í fyrirtækjum sínum.

„Einkahlutafélag er auðvitað ekki starfsmaður fyrirtækisins," segir Stefán. Hann setur þó þann fyrirvara að um lán hafi verið að ræða, í skilningi hlutafélagalaga.

Í 104. grein laganna segir að starfsmennirnir eða tengd félög megi fá lán til að kaupa hlutina, en Stefán kveður að umrædd tengd félög séu tengd fjármála­fyrirtækinu, ekki starfsmönnunum.

Þekkt dæmi um að starfsmaður banka hafi stofnað félag til slíkra kaupa er af Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings. Hann stofnaði félag í eigin nafni og fékk lán upp á 3,5 milljarða til þessa. Alls fengu starfsmenn í Kaupþingi fimmtíu milljarða að láni til hlutabréfakaupa.

Starfskjarastefna banka kveður á um með hvaða hætti umbun til æðstu starfsmanna skuli vera. Samkvæmt starfskjarastefnu Kaupþings var starfsmönnum leyft að kaupa þessa hluti „til þess að samræma hagsmuni starfsmanna við langtímahagsmuni hluthafa".

Aðalfundur hvers banka samþykkir starfskjarastefnu hans. Spurður hvort stjórnir bankanna hafi farið á svig við samþykktir aðalfunda með þessum lánum, segir Vilhjálmur Bjarnason, formaður Félags fjárfesta, að samþykktir aðalfunda á Íslandi séu ekki merkilegar: „Aðalfundir samþykktu aldrei neitt, þetta var mjög hrátt."

Spurður hvernig lán til hluta­félaga standist stefnu sem miði að því að samræma hagsmuni banka og starfsmanna, þegar starfsmenn séu ekki endilega í persónulegum ábyrgðum fyrir einkahlutafélaginu, segir Vilhjálmur: „Þarna er ekkert verið að tengja hagsmuni starfsmanna og bankans saman, þarna er verið að velta allri áhættunni yfir á bankana. [...] Félag getur ekki verið aðili að kjarasamningi."

En þetta mun ekki hafa verið skilningur bankanna, því í skýringum við ársreikning Landsbanka 2007 er tekið fram að lánað hafi verið til félaga í eigu æðstu stjórnenda. Annars er hvergi minnst á lán til einkahlutafélaga í starfskjarastefnum bankanna, eftir því sem næst verður komist.

Refsing fyrir brot á viðkomandi grein hlutafélagalaga getur varðað allt að tveggja ára fangelsi, að sögn Stefáns Más.- kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×