Lífið

Nicholson tekur til í Óskars-hillunni

Öruggur Óskar Jack Nicholson tekur við hlutverki sem Bill Murray hafnaði og leikur í rómantískri gamanmynd eftir James L. Brooks.
Öruggur Óskar Jack Nicholson tekur við hlutverki sem Bill Murray hafnaði og leikur í rómantískri gamanmynd eftir James L. Brooks.

Jack Nicholson hefur ákveðið að taka við keflinu af gamanleikaranum Bill Murray í kvikmynd eftir James L. Brooks. Myndinni hefur enn ekki verið gefið nafn en er titluð sem Paul Rudd/Reese Witherspoon/Owen Wilson-myndin en hún ku vera rómantísk, væntanlega með smá gríni og glensi inni á milli.

Murray hafði staðið í samningaviðræðum við framleiðendur myndarinnar í dágóðan tíma en þegar hann svaraði ekki skilaboðum og lét ekki ná í sig, gáfust þeir upp og fengu Nicholson til að hlaupa í skarðið. Ef marka má kvikmyndabiblíuna Variety þá er þetta ekkert óalgengt þegar Murray er annars vegar því Sofia Coppola, leikstjóri Lost in Translation, vissi ekki hvort Murray hefði samþykkt að leika í myndinni fyrr en hann mætti til Japans.

En þá að Jack Nicholson. Hann er væntanlega farinn að taka til í Óskars-hillunni sinni, nú þegar samstarfið við Brooks hefur verið endurnýjað. Því þegar Nicholson hefur leikið í kvikmynd eftir leikstjórann þá hefur sú ráðstöfun nánast undantekningalaust skilað honum gullstyttunni frægu.

Nicholson fór á kostum í Terms of Endearment og var engu síðri í As Good as it Gets, en þær kvikmyndir eru báðar eftir Brooks. Þótt hlutverkið sé lítið, spáir kvikmyndatímaritið Empire því að Nicholson verði meðal þeirra sem tilnefndir verða til Óskarsins fyrir bestan leik í aukahlutverki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.