Innlent

Áttu að slíta starfsemi Samvinnutrygginga fyrir löngu

Slíta hefði átt starfsemi Samvinnutrygginga sumarið 1994, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga. Fjármunir félagsins hafa síðan meðal annars verið notaðir til fjárfestinga með Finni Ingólfssyni og til að kaupa Búnaðarbankann af íslenska ríkinu.

Fjárfestingafélagið Gift var stofnað upp úr eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, sumarið 2007. Þetta vakti töluverða athygli, enda stóð til að Gift yrði skipt upp milli allra þeirra sem áttu réttindi í samvinnutryggingum. Félagið átti meðal annars hlut í Icelandair, en einnig stóran hlut í kaupþingi og Exista, auk hluta í Straumi og Landsbankanum. Fyrir hrun námu eignir félagsins tugum milljarða króna. Tugir þúsunda Íslendinga sem áður tryggðu hjá Samvinnutryggingum áttu rétt til að eignast hlut í Gift, en fengu aldrei, því megið af eignunum hvarf í hruninu. Milljarða skuldir standa eftir.

Lagastofnun var falið að rannsaka starfsemi félagsins í fyrra. Skýrsla um málið, sem Stefán Már Stefánsson, prófessor vann, liggur nú fyrir, en hefur ekki verið birt. Eftir því sem fréttastofan kemst næst, er það afdráttarlaus meginniðurstaða Stefáns, að Samvinnutryggingum hefði átt að slíta sumarið 1994. Þá var nettóeign félagsins, samkvæmt heimildum fréttastofu um 220 milljónir króna.

En enda þótt þau fyrirtæki og einstaklingar sem í reynd áttu félagið, hafi aldrei séð krónu, þá hafa fjármunir félagsins nýst ýmsum við ýmsar fjárfestingar, eftir að því átti að slíta, samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar.

Til að mynda átti félagið hlut í Eglu sem aftur átti þátt í að kaupa stóran hlut í Búnaðarbankanum árið 2002. Þá hefur félagið einnig átt hlut í Langflugi á móti Finni Ingólfssyni. Það félag hefur aftur verið stór eigandi í Icelandair. Finnur sjálfur, var þegar síðast fréttist, stjórnarformaður Samvinnusjóðsins, sem að líkindum var ráðandi afl innan eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×