Lífið

Bitist um Guð blessi Ísland

Guð blessi ísland 
Þessi fleygu ummæli Geirs H. Haarde virðast ætla að reynast einkunnarorð hrunsins - en bæði Símon Birgisson leikskáld og Helgi Felixson kvikmyndagerðarmaður hafa fundið í þeim titil verka sinna.
Guð blessi ísland Þessi fleygu ummæli Geirs H. Haarde virðast ætla að reynast einkunnarorð hrunsins - en bæði Símon Birgisson leikskáld og Helgi Felixson kvikmyndagerðarmaður hafa fundið í þeim titil verka sinna.

„Það á náttúrulega enginn einkarétt á setningunni „Guð blessi Ísland". En það er vandræðalegt að bæði verkin beri sama nafn," segir Símon Birgisson, leikskáld og listnemi.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir nokkru að kvikmyndagerðarmaðurinn Helgi Felixson verði líklega fyrstur til að frumsýna sína heimildarmynd um hrunið þann 6. október, en nokkur fjöldi kvikmynda­gerðarmanna vinnur að gerð heimildarmynda um þessa merkilegu tíma í sögu Íslands. Helgi leitar ekki langt yfir skammt og hefur gefið mynd sinni nafnið „Guð blessi Ísland" með vísan í fræga ræðu Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Svo meinlega vill til að þetta er nákvæmlega titillinn sem Símon hafði fundið á heimildarleikrit sem var útskriftar­verkefni hans við Listaháskólann í vor. Verk Símonar var frumflutt í Borgarleikhúsinu og stendur til að það verði flutt í Útvarpsleikhúsinu í haust. Símon sendi Helga tölvupóst og vakti athygli hans á þessum meinlega árekstri.





Helgi Felixson.

„Hann var kammó þessi gaur. En það er fyndið að hann skuli taka nafn á verki, sem er heimildarleikrit um krísuna, útskriftarverkefni mitt. Erfitt fyrir mig að vera að berjast við hákarla í kvikmyndaheiminum. Þetta sýnir ekki mikla hugmyndaauðgi af hans hálfu," segir Símon sem setti sig í samband við Rithöfunda­­samband Íslands til að kynna sér stöðu sína og hefur í höndum bráðabirgðasvar þaðan. Þar er vísað í höfundalög, VI. kafla, Ýmis ákvæði, 51. grein:

„Nú hefur höfundur notað sérstakan titil, gervinafn eða merki á birtu verki, og er öðrum þá óheimilt að birta verk með sams konar auðkenni eða svo áþekku, að líklegt sé, að villst verði á verkunum eða höfundum þeirra."

Símon segist ekki hafa bolmagn til að vekja athygli á því að leikrit hans og heimildarmynd Helga séu ekki sama fyrirbærið. Hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig rétt sé að bregðast við þessari stöðu.





Símon Birgisson listaháskólanemi

Helgi Felixson segist fátt geta sagt um málið annað en að þetta nafn hafi verið á myndinni nánast frá því orð Geirs féllu. Helgi segist ekkert hafa þekkt til téðs heimildarleikrits fyrr en honum barst tölvupóstur frá Símoni.

„Þetta kom mér á óvart. Ég hafði ekki hugmynd um þetta enda bý ég ekki á Íslandi," segir Helgi sem búsettur er í Svíþjóð.

Hann telur óvíst að Símon hafi verið á undan með að ákveða þennan titil á sitt verk. Símon er nú við mastersnám í Þýskalandi, komst einn fjögurra af nokkur hundruð umsækjendum í leiklistarfræði í Giessen-háskólann, sem er ein frægasta leiklistardeildin „ … í avant Garde-senunni hérna úti," segir Símon.

jakob@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.