Innlent

Gera stikkprufur vegna litaðrar olíu

Þótt ríkisskattstjóri hafi ekki enn fengið því framgengt að koma á viðskiptakortum fyrir notkun á gjaldfrjálsri olíu og fái ekki að styðjast við eftirlitsmyndavélar bensínstöðva er fylgst með því hvort verið sé að misnota þessa olíu.

„Í hverjum mánuði eru tekin um 100 til 200 sýni úr eldsneytistönkum dísilknúinna bifreiða," segir í grein Jóhannesar Jónssonar í Tíund, sem er blað ríkisskattstjóra. Þar kemur fram að ellefu starfsmenn Vegagerðarinnar á fjórum bílum sinni þessu eftirliti samhliða öðrum verkefnum. Auk þess séu farnar eftirlitsferðir með fulltrúa ríkisskattstjóra, stundum í samvinnu við lögreglu.

„Ríkisskattstjóri hefur lista yfir það sem kalla mætti „heitar dælur", það er dælur þar sem líklegt er að verið sé að dæla litaðri olíu á ökutæki er ekki hafa heimild til slíkra nota. Í slíkum tilvikum fylgjast eftirlitsmenn með því þegar eigendur bifreiða dæla eldsneyti á bifreiðar sínar," skrifar Jóhannes og segir rætt við viðkomandi ef grunsemdir vakni. „Oft vita menn upp á sig skömmina, stökkva inn í bíl og þeysa á brott eða bera fyrir sig mistrúverðugar skýringar líkt og að vera ekki með gleraugun á sér."

Þá kemur fram að stór hluti slíkra mála sem fari til ríkisskattstjóra sé einmitt vegna eftirlits við olíudælur. Meðalsekt hafi verið 142 þúsund krónur fyrir heimilisbíla og 615 þúsund fyrir þyngri bíla. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×