Lífið

Mannlíf frestast vegna viðkvæms forsíðuefnis

Reynir Traustason segir  tilraun með útgáfu fréttamagasíns fullreynda en útgáfa Mannlífs undanfarin ár var rekin með miklu tapi.
Reynir Traustason segir tilraun með útgáfu fréttamagasíns fullreynda en útgáfa Mannlífs undanfarin ár var rekin með miklu tapi.

„Nei, það er vont að tala um hvað verður á forsíðunni svona löngu áður en blaðið kemur. Við erum þjófhræddir. Við frestuðum útgáfu blaðsins um viku vegna þess hversu viðkvæmt þetta efni er," segir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs.

Tímaritið Mannlíf var sett í salt um síðustu áramót en hefur verið endurvakið og er það í raun ritstjórn DV sem sér um tímaritið auk nokkurra lausapenna. Feðgarnir Reynir og Jón Trausti eru ritstjórar en aðstoðarritstjórar þeir Þórarinn Þórarinsson og Brynjólfur Guðmundsson. Blaðið fer í dreifingu til áskrifenda annan miðvikudag en fer í verslanir eftir um tíu daga.

„Við höfum notað tímann sem gafst eftir að mánudagsblað DV var lagt af. Enginn fastakostnaður er á blaðinu en það eru starfsmenn DV auk annarra starfsmanna Birtings sem leggja til efni. Það er ekki full vinna að gefa út," segir Reynir. Hann lýsir því að útgáfan hafi verið mjög erfið undanfarin tvö ár og Mannlíf hafi verið rekið með tapi. Reynir segir jafnframt það ekki fullt starf að ritstýra tímariti sem komi út nokkrum sinnum á ári.

Til stendur að gefa Mannlíf út eftir því hvernig stemningin er og svo eru einhverjir fastir liðir sem kalli á útgáfu: Gaddakylfublaðið með glæpasögum komi út næst, tekjublað í ágúst og svo sjá menn til. Tímaritið verður meira í ætt við Mannlíf ársins 2006 en það var í ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar undir það síðasta.

„Þessi tilraun með að gera fréttamagasín er fullreynd. Hún stóð í tvö ár og ekki með góðum árangri. Þetta er nýtt blað, metnaðarfullt verkefni, og hefur Jón Óskar verið vakinn og sofinn í tvo mánuði við að endurteikna blaðið," segir Reynir sem nú titlast ritstjóri Mannlífs þriðja sinni.- jbg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.