Innlent

Landsbjörg í viðbragðsstöðu vegna jarðskjálftans á Ítalíu

Frá  æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni með norsku sveitinni sl. sumar.
Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni með norsku sveitinni sl. sumar.

Rétt fyrir klukkan 2 í nótt bárust boð frá jarðvísindastofnun Bandaríkjanna um að jarðskjálfti upp á 6.3 á Richter hefði riðið yfir miðhluta Ítalíu. Jarðskjálftinn var mjög grunnt undir borginni L'Aquila sem er um 90 km norðaustur af Róm. Stjórnendur Íslensku Alþjóðasveitarinnar vöktuðu ástandið frá fyrstu mínútum og öfluðu upplýsinga í gegnum fjölmiðla og tengiliði innan Sameinuðu þjóðanna.

Þegar leið á nóttina varð ljóst að þó svo að ástandið væri alvarlegt þá væri það þannig að björgunaraðilar í Ítalíu myndu geta séð um viðbrögðin án þess að óskað yrði eftir aðstoð frá alþjóðlegum rústabjörgunarsveitum. Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var sett í vakt-stöðu (e: monitoring), sem er lægsta viðbragð sem skilgreint er. Lang flestar aðrar alþjóðabjörgunarsveitir voru síðan settar í sömu stöðu. Einungis Grikkir eru búnir að senda sína sveit af stað.

Nýjustu upplýsingar frá Ítalíu benda til þess að þúsundir manna hafi misst heimili sín og að um eða yfir 100 manns hafi látist.

Stjórnendur Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar munu fylgjast áfram með stöðunni og ef ástandið breytist, endurmeta hvort sveitin verði sett í hærra viðbragð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×