Innlent

Alcoa segist stefna ótrautt á álver á Bakka

Ráðamenn Alcoa segja engan bilbug á fyrirtækinu að reisa álver á Bakka við Húsavík. Það hafi lagt tæpan milljarð króna í undirbúning og muni sækjast eftir endurnýjun viljayfirlýsingar í haust.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, sem áður hafði stutt álver á Bakka, virtist hafa skipt um skoðun í aðdraganda kosninganna þegar hann gaf óljósa yfirlýsingu, sagði nóg komið af álverum og taldi Alcoa ekki ætla í frekari fjárfestingar. Alcoa-menn segjast hins vegar vera að vinna að undirbúningi Bakka-álvers af fullum krafti og fyrirtækið mun sækja á um endurnýjun viljayfirlýsingar við stjórnvöld og viðkomandi sveitarfélög sem rennur út 1. október í haust.

Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri hjá Alcoa Ísland, segir fyrirtækið stefna ótrautt að því að fá viljayfirlýsinguna endurnýjaða. Það sé þegar búið að leggja tæpan milljarð króna í verkefnið og enginn bilbugur sé á Alcoa. Fyrirtækið haldi áfram undirbúningi og verði þá tilbúið þegar birti til í efnahagslífinu á nýjan leik. Þá geti það vonandi ráðist í framkvæmdir fyrir norðan.

Menn hafa spurt hvort orð Össurar megi tengja pólitísku baksamkomulagi um að Vinstri grænir kyngi Evrópusambandsumsókn gegn því að Samfylkingin fórni álveri. En hver yrðu viðbrögð Alcoa ef ný ríkisstjórn hafnaði álveri eftir að fyrirtækið hefði eytt þessum fjármunum í undirbúning?

Erna segir að það yrði þá að metast þegar þar að kæmi. Hún ætti hins vegar erfitt með að sjá það, eins og nú áraði í efnahagslífinu og með því atvinnleysi sem nú væri, að það væri mjög skynsamlegt að sleppa tækifærum sem þessu, ef þau bjóðast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×