Lífið

Arnaldur heillar Spánverja með „La mujer de verde“.

MYND/Ralph Baumgartner

Skáldsagan Grafarþögn eftir Arnald Indriðason kom út fyrir rúmum mánuði á Spáni undir heitinu La mujer de verde. Þetta er önnur bók Arnaldar sem kemur út þar í landi en áður hefur Mýrin verið gefin út á spænsku.

Í tilkynningu frá útgefanda segir að Grafarþögn hafi gengið gríðarlega vel í spænska lesendur og setið allan aprílmánuð í efstu sætum metsölulistanna. Á metsölulistum þriggja stærstu blaðanna í Katalóníu - La Vanguardia, El Periódico og El Mundo: Catalunya - fór bókin beint í fimmta sæti en hækkaði sig viku síðar í fjórða sæti og hefur setið þar síðan.

„Sömu sögu er að segja á metsölulista La Razon sem kemur út um allan Spán. Á þeim lista slær Arnaldur við svakalegum metsölubókum eins og Twilight-bókum Stephenie Meyer og Lesaranum eftir Bernhard Schlink með því að sitja fast í fjórða sæti. Raunar virðast vinsældir Arnaldar teygja sig ansi víða á Spáni. Sem dæmi má nefna að í blaðinu Hoy sem kemur út í Extremadura héraðinu vestast á Spáni fór Grafarþögn líka beint í fjórða sæti og þar hefur hún verið síðan," segir einnig.

Útgefandi segir að góðan árangur Arnaldar á Spáni megi meðal annars þakka mikilli og jákvæðri umfjöllun, en birst hafa stórar greinar um bókina og höfundinn í blöðum eins og La Vanguardia og El Mundo. „Gagnrýnendur hafa þá tekið bókinni vel; El Periódico segir rannsóknarlögreglumanninn Erlend Sveinsson vera norræna útgáfu af Maigret lögregluforingja, stóískan og angistarfullan: „Ég ríf í mig Grafarþögn eftir Arnald Indriðason, óhugnanlega spennusögu sem ég tel eina af áleitnari og mest grípandi skáldsögum seinni tíma," segir ritdómarinn Ramón de España."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.