Innlent

Fangalist á Litla-Hrauni

Listin blómstrar á bak við rimlana á Litla-Hrauni. Þar er brotamönnum gefinn kostur á að vinna að sköpun sinni og er litið á það sem hluta af mikilvægu endurhæfingaferli.

Jákvætt þykir að fangar vinni að áhugamálum sínum, en tveir listamenn eru nú meðal afplánunarfanga á Litla-Hrauni og eyða þeir flestum sínum stundum við málun og leirlistagerð. Kristmundur Þ. Gíslason, sem hlaut 16 ára dóm fyrir morð, hefur nú þegar haldið eina málverkasýningu.

Kristmundur segir að þetta séu forréttindi fyrir sig. Ákveðið frelsi fygli listinni.

Annar fangi, sem afplánar dóm fyrir kynferðisbrot, býr til óvenjulegar leirfígúrur. Hann var á barnsaldri þegar hann byrjaði að móta hluti úr leir, en eins og sjá má eru stytturnar listavel gerðar. Fyrirmyndir að verkunum finnur hann í myndum sem hann hefur sankað að sér, margar sem sýna furðuskepnur úr erlendum þjóðsögum.

„Þetta hefur fólk gaman af, hefur gaman af skáldskap og sögum. Ég er bara að reyna að gera það sem mér finnst gaman að gera og veit að annað fólk vill kaupa," segir fanginn sem vill ekki koma fram undir nafni.

Fangarnir selja báðir verk sín og geta áhugasamir haft samband við starfsmenn Litla-Hrauns sem geta haft milligöngu þar um. Ítarlega verður rætt við leirlistamanninn um líf hans og tilveruna í fangelsinu í Íslandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×