Innlent

Jón varð undir í þingflokknum

Þingflokkur Frjálslynda flokksins að undanskildum Kristni H. ásamt starfsmönnunum Magnúsi Reyni Guðmundssyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Þingflokkur Frjálslynda flokksins að undanskildum Kristni H. ásamt starfsmönnunum Magnúsi Reyni Guðmundssyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, varð undir í atkvæðagreiðslu í þingflokknum fyrr í vikunni þegar tekin var ákvörðun um það hvort að flokkurinn stillti sér upp með stjórnarflokkunum og Framsóknarflokknum gegn Sjálfstæðisflokknum við kosningu fastanefnda Alþingis.

Við kosningu þingmanna í fastanefndirnar á miðvikudaginn komu fram tveir listar. Annar innihélt einungis þingmenn Sjálfstæðisflokks en hinn þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins. Við þetta fjölgaði fulltrúum Frjálslynda flokksins í fastanefndum þingsins um fjóra og sitja þingmenn flokksins nú ellefu nefndum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vildi Jón að flokkurinn tæki sér stöðu með Sjálfstæðisflokknum þegar kom að skiptingu fastanefnda. Kosið var um málið á þingflokksfundi og varð Jón undir í atkvæðagreiðslunni. Guðjón Arnar Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Grétar Mar Jónsson vildu allir að flokkurinn stillti sér upp með stjórnarflokkunum og Framsóknarflokknum.

Leiða má líkum að því að það hafi verið síðasta hálmstráið því Jón hefur nú opinberað að hann hyggst ekki gefa kost á sér fyrir flokkinn í komandi þingkosningum.

Jón sagði í samtali við fréttastofu í morgun Frjálslynda flokkinn ekki tala nægjanlega skýrt í mikilvægum málum og innan hans séu miklar deilur.


Tengdar fréttir

Siðferðisbrestur Guðjóns - hættir á þingi fyrir Frjálslynda

„Þegar menn búa við heimilisböl til lengri tíma þá endar það með því að þeir segja hingað og ekki lengra," segir Jón Magnússon, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sem hefur ákveðið gefa ekki kost á sér fyrir flokkinn í komandi þingkosningum. Jón segir Guðjón Arnar Kristjánsson, formann flokksins, hafa sýnt alvarlegan siðferðisbrest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×