Innlent

Engin mataraðstoð veitt í júlí

Telma Tómasson skrifar
Frá úthlutun Mæðrastyrksnefndar fyrr á árinu.
Frá úthlutun Mæðrastyrksnefndar fyrr á árinu. Mynd/GVA
Lokað verður vegna sumarfría bæði hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni í júlímánuði og verður engin mataraðstoð veitt á þeim tíma. Hjálparstarf kirkjunnar lokar í hálfan mánuð yfir rólegasta tímann í sumar.

Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefnd reiða sig algerlega á óeigingjarnt starf sjálfboðaliða við matarúthlutanir, umsýslu í kringum þær og ýmsa aðra aðstoð.

Hjálparstarf kirkjunnar sinnir mataraðstoð um land allt og nýtur einnig liðsinnis fjölda sjálfboðaliða. Hjálparstarfið er með úthlutanir í Reykjavík og á Akureyri, en dreifir einnig matarpökkum til þeirra er þurfa á að halda í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaga og presta víðs vegar um landið.

Ásgerður Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir að lokað verði frá 24. júní til 12. ágúst. Hátt í 30 sjálfboðaliðar starfa allt árið um kring fyrir samtökin og Ásgerður segir að þeim sé nauðsynlegt að fá sumarfrí. Fólk sem leiti til samtakanna hafi góðan skilning á því.

Ásgerður segir mikilvægt að starfsfólk hafi nægan styrk til að fara inn í næsta vetur þar sem búist er við að þörfin fyrir aðstoð muni aukast verulega. Fjölskylduhjálpin hefur reynt að fá stuðning frá hinu opinbera til að halda úti hálfu stöðugildi hjá samtökunum, þar sem umsýslan vegna úthlutana og aðstoðar hefur aukist í hverri viku. Ekki hefur verið brugðist við óskum þess efnis.

Sumarfrí eru einnig ástæða þess að lokað verður hjá Mæðrastyrksnefnd, en þar verður engin starfsemi frá 1. júlí til 9.ágúst. Fyrsta úthlutun verður annan miðvikudag í ágúst.

Hjálparstarf kirkjunnar lokar síðan fyrir starfið hjá sér í tvær vikur - vikuna fyrir og eftir verslunarmannahelgi. Er það sagður rólegasti tíminn og erfitt að fá sjálfboðaliða á þeim tíma.

Sífellt stækkandi hópur leitar ásjár hjá hjálparsamtökum miðað við sama tíma í fyrra og fjölgaði þeim til að mynda um 240% milli ára sem leituðu til Hjálparstarfs kirkjunnar. Mörg hundruð fjölskyldur eru á bak við þær tölur. Forsvarsmenn eru sammála um að breyting hafi orðið á samsetningu þess hóps sem þarf á aðstoð að halda, sífellt fleiri séu að koma í fyrsta sinn - einkum atvinnulaust fólk og mikið skuldsettir einstaklingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×