Lífið

Izzy og O´Malley að hætta í Grey´s Anatomy

Óli Tynes skrifar
Katherine Heigl og T.R. Knight.
Katherine Heigl og T.R. Knight.

Það var ekki minni persóna en James Pickens sem upplýsti að Katherine Heigl og T. R. Knight væru að hætta í þáttunum en þau leika læknana Izzy Stevens og George O´Malley.

Sjálfur leikur James Pickens svarta yfirlækninn Richard Webber. Pickens sagði í viðtali við tímaritið US Weekly að T.R. Knight ætlaði að snúa sér að öðrum verkefnum, en hann vissi ekki hvað Heigl tæki sér fyrir hendur.

Henni hefur raunar gengið ágætlega á hvíta tjaldinu undanfarin misseri og leikið í nokkrum kvikmyndum sem hafa verið ágætlega sóttar.

T.R. Knight hefur ekkert tjáð sig um þessar fréttir en Heigl segir að hún hreinlega viti ekki hvort hún verði skrifuð út úr þáttunum, eða hvernig það yrði gert. Hún vill allt eins láta drepa sig.

Það er því mikil spenna í loftinu í Greys Anatomy.

Ekki er víst að allir aðdáendur viti að nafn þáttanna er dálítill orðaleikur.

Aðalpersóna þáttanna er náttúrlega doktor Meredith Grey. En nafnið er líka vísan í kennslubókina Grey´s Anatomy sem læknirinn Henry Grey skrifaði fyrir margt löngu.

Hún er ein þekktasta kennslubók um mannslíkamann sem hefur verið gefin út.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.