Innlent

Vill ræða umhverfismál eins og fullorðið fólk

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir segist hafa komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum varðandi Suðvesturlínu að nokkur atriði tengd því máli væru alls ekki nægilega vel upplýst til að hægt væri að taka endanlega ákvörðun um það hvort línan ætti að fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Svandís segir viðbrögð stjórnmálamanna, sér í lagi sjálfstæðismanna við úrskurðinum því miður endurspegla þá umræðu sem oftar en ekki verði um umhverfismál hér á landi.

Þetta kemur fram í pistli Svandísar á vef Pressunnar í dag.

Hún segist telja þá umræðu tilheyra tímanum fyrir það samfélagshrun sem var fyrir ári síðan.

„Það hrun má að mörgu leyti rekja til þess að sérhagsmunir voru teknir fram fyrir almannahagsmuni og stjórnvöld gáfu sér ekki nægilegan tíma til að meta áhrif þeirra ákvarðana sem teknar voru. Það gleymdist að horfa til framtíðar. Ummæli sem fallið hafa um þetta mál dæma sig sjálf og endurspegla aðeins rökleysi þeirra sem grípa til orða eins og skemmdaverk og hryðjuverkaárás," segir í pistlinum.

Hún segir jafnrframt að þau gildi sem núverandi ríkisstjórn hafi að leiðarljósi í störfum sínum séu aukið lýðræði, opnari stjórnsýsla, aukið gagnsæi og sjálfbær þróun.

„Í þessu felst að allar ákvarðanir stjórnvalda verða að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, líka þeirra sem erfa munu landið. Ég legg því til að við sem tökum ákvarðanir sem hafa áhrif á komandi kynslóðir ræðum um umhverfismál eins og fullorðið fólk án þess að fara í þann skotgrafahernað sem allt of lengi hefur einkennt málaflokkinn."

Pistilinn í heild sinni má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×