Erlent

McDonald's-menn ekki sáttir við McCurry

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
McCurry-staðurinn í Malasíu þykir ekki brjóta gegn rétti McDonald's.
McCurry-staðurinn í Malasíu þykir ekki brjóta gegn rétti McDonald's.

Skyndibitarisinn McDonald's beið lægri hlut í deilum um vörumerki við karríréttastað í Malasíu.

Eftir átta ár í ýmsum réttarsölum í Malasíu varð loksins ljóst í morgun að karríveitingahúsinu McCurry er heimilt að nota þetta heiti þrátt fyrir hávær mótmæli forsvarsmanna McDonald's-hamborgararisans sem töldu einsýnt að forskeytið Mc tilheyri þeim og þeim einum.

Alríkisdómstóll Malasíu, skipaður þremur dómurum, hafnaði þessu í morgun og bannaði McDonald's-mönnum þar með að fara með málið fyrir áfrýjunardómstól. Rökin fyrir þessari niðurstöðu eru einfaldlega þau að Mc-ið í McCurry sé stytting á Malaysian Chicken Curry sem er fullt nafn staðarins. Þar með telst það skammstöfun sem ekki brýtur í bága við auðkennarétt McDonald's.

Það var árið 2001 sem málaferlin hófust og reyndar tapaði McCurry málinu einu sinni árið 2006 en fór með sigur á efra dómstigi. McDonald's rekur 185 staði í Malasíu en McCurry-staðurinn er aðeins einn og staðsettur í Kuala Lumpur. Þeir á McDonald's þurfa því kannski ekki að kvíða því að tjón þeirra verði mikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×