Innlent

Neyðast til að fella niður ferðir til Portúgals

Breki Logason skrifar
Þorsteinn Guðjónsson forstjóri Úrvals Útsýnar
Þorsteinn Guðjónsson forstjóri Úrvals Útsýnar

Þorsteinn Guðjónsson forstjóri Úrvals Útsýnar segir að ferðir til Portúgals hafi verið felldar niður seinni hluta sumars. Hann segir að einfaldlega séu of fáir sem hafi skráð sig í þessar ferðir og því hafi verið ákveðið að fella þær niður. Þeir sem áttu bókað í þessar ferðir fá annaðhvort endurgreitt eða er boðið upp á aðra valkosti.

„Meðan gengið er svona og eftirspurnin minni þá verðum við að bregðast við," segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu. Hann segir júní hafa verið allt í lagi og menn hafi reynt að halda þessum ferðum úti eins lengi og þeir gátu. Bókanir séu hinsvegar að berast seint.

„Við lögðum varlega af stað og settum okkur raunhæft plan. En eins og við vissum svosem þá er þjóðin að haga sér öðruvísi og við verðum að haga okkur eftir því. Við bjóðum fólki upp á endurgreiðslu eða aðra valkosti. Auðvitað þykir okkur leitt að vera að raska fólki en við höfum mætt miklum skilningi hjá okkar viðskiptavinum," segir Þorsteinn.

Hann segir að áður fyrr hafi fólk verið að bóka ferðir með kannski þriggja mánaða fyrirvara fyrir brottför en núna séu þeir að horfa upp á að fólk sé að bóka ferðir með nokkra daga fyrirvara.

„Það gerir okkur erfitt fyrir. Við reynum hinsvegar að komast hjá neyðaraðgerðum sem þessum sem eru ekki algengar hjá okkur. Svona er bara Ísland í dag og við reynum að komast í gegnum þennan öldudal, vonandi komum við bara sterkari uppúr honum að lokum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×