Lífið

Guy Ritchie fær strákana í þrjá mánuði

Guy Ritchie fær að hafa strákana sína tvo, þá Rocco og David Banda, hjá sér yfir sumarið.
Guy Ritchie fær að hafa strákana sína tvo, þá Rocco og David Banda, hjá sér yfir sumarið.

Breski kvikmyndaleikstjórinn Guy Ritchie og bandaríska poppdívan Madonna hafa náð samkomulagi um að strákarnir þeirra, hinn átta ára gamli Rocco og hinn fjögurra ára gamli David Banda, verði hjá honum yfir sumartímann. Madonna er að halda í tónleikaferðalag um Evrópu og sættist á þau rök fyrrverandi eiginmanns síns að skynsamlegast væri fyrir strákana að vera hjá pabba sínum í stað þess að vera á stanslausum þvælingi.

Þetta er nokkuð óvænt vopnahlé að mati fréttaskýrenda því stutt er síðan Madonna fékk þann úrskurð að lögheimili David og Rocco væri í Bandaríkjunum. Guy leist ekkert á þá niðurstöðu og lýsti því yfir að hann væri hundfúll. Nú getur hann aftur á móti tekið gleði sína á ný og hyggst leikstjórinn breyta nokkrum hlutum á heimili sínu í Ashcombe í tilefni af komu strákanna sinna. Guy hyggst meðal annars byggja sundlaug, sem Madonna lagðist gegn á hjúskaparárum þeirra. „Hann ætlar að gera þetta að sumri sem þeir gleyma seint eða aldrei," sagði einn heimildarmaður breska blaðsins The Sun.

Og Guy virðist njóta piparsveinalífsins því hann hefur sést í örmum ungra kvenna. Náinn vinur Guy sagði við The Sun að hann hygðist ekki gera sömu mistök aftur; að stofna til sambands við sér eldri mey. „Þær konur sem Guy hefur verið að hitta eru á svipuðu reki eða aðeins yngri en hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.