Innlent

Áhyggjur yfir kjaraþróun fólks með meðalháar tekjur

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM
Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM
Formaður BHM lýsir áhyggjum yfir kjaraþróun fólks með meðalháar tekjur í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum. Formaður BSRB er áhyggjufull yfir hækkun á tryggingargjaldi. Framkvæmdarstjóri ÖBÍ vill leiðrétta skerðingu sem öryrkjar og lífeyrisþegar urðu fyrir í sumar.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður Bandalags háskólamanna, segir mikilvægt að huga að jaðaráhrifum skattbreytinga og tekjutenginga í þessu samhengi.

Guðlaug segir að BHM sé fylgjandi því að jafnræðis sé gætt og fjallað sé um sérkjör hópa með beinum hætti. Bandalagið telur um 10.000 félagsmenn en 90% af þeim er í opinberum störfum.

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, sem telur rúmlega 22.000 félagsmenn, þar af eru 70% konur, lýsir yfir ánægju með þriggja þrepa skattkerfi þar sem sérstök áhersla er lögð á að verja lægstu launin.

Hún segir þó að barna- og vaxtabætur skipti miklu máli í tengslum við tekjutenginguna og einnig sé mikilvægt að fæðingarorlof haldi. Elín segist þó áhyggjufull yfir 1,6% hækkun á tryggingargjaldi og segir BSRB vara við því að sú hækkun, geti haft í för með sér aukna hagræðingarkröfu á stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdarstjóri Öryrkjabandalags Íslands segist við fyrstu sýn líta svo á að breytingunum sé ætlað að gera byrðarnar réttlátari og sanngjarnari sem sé jákvætt og nefnar þar hækkun á skattleysismörkum. Henni finnst ríkisstjórnin þó ekki ganga nægjanlega langt í þessum breytingum sínum.

Lilja segir að í ljósi aukinna tekna sem ætlað er að koma inn í ríkissjóð, 50 milljarða króna, væri rétt að draga til baka þá skerðingu sem öryrkjar og lífeyrisþegar urðu fyrir þann 1.júlí. Nú sé tækifæri til að leiðrétta þær skerðingar sem settar voru á með nokkurra daga fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×