Innlent

Olís og ÓB endurgreiða viðskiptavinum

Þeir viðskiptavinir Olís og ÓB sem keyptu bensín frá kl. 10:00 föstudaginn 29. maí til kl. 13:30 mánudaginn 8. júní fá 12,50 kr. á hvern lítra endurgreiddar. Í ljós hefur komið að ekki á að skila ríkissjóði hækkuðu bensíngjaldi af þeim birgðum sem félagið átti við lagabreytingu þann 28. maí síðastliðinn

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þá segir að unnið hafi verið að því í samstarfi við greiðslukortafyrirtækin að finna þægilega leið til handa viðskiptavinum að framkvæma endurgreiðsluna.

Endurgreiðslan mun fara fram eins og hér segir:

1. Viðskiptavinir sem greiddu með debet eða kreditkortum munu fá innborgun inn á kort sín á næstu dögum.

2. Þeir sem greitt hafa með Olískorti fá kreditfærslu inn á viðskiptareikning sinn sem dregst frá næstu greiðslu.

3. Þeir sem versluðu við ÓB með ÓB lykli munu fá endurgreiðslu inn á tengt greiðslukort.

4. Þeir sem greiddu með ÓB Frelsi munu fá endurgreitt inn á inneignarreikning sinn.

5. Þeir sem staðgreiddu geta framvísað kvittunum sínum á næstu þjónustustöð Olís sem mun koma upplýsingum áfram til höfuðstöðva eða hringt í símanúmer 515-1000 og gefið þar upp nauðsynlegar upplýsingar þannig að leggja megi endurgreiðslu inn á bankareikning viðskiptavinar.



Endurgreiðslan á aðeins við til þeirra sem keyptu bensín, enda var álagning skatts á díesel olíu rétt framkvæmd.

Olís biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem viðskiptavinir félagsins hafa orðið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×