Innlent

Eignaumsýsla ríkisins lögfest

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í ræðustól.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í ræðustól.

Lög um eignaumsýslufélag ríkisins voru samþykkt fyrir helgi. Í lögunum er kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að stofna opinbert hlutafélag utan um rekstrarhæf atvinnufyrirtæki í eigu ríkisins.

Upphaflega stóð til að lögin tækju til þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja, en að ráði Mats Josefson, efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, var sú tilvísun felld út. Hún var að hans mati bæði loðin og óljós og því var orðalagið rekstrarhæft tekið upp í staðinn.

Tilgangur félagsins er að aðstoða fjármálafyrirtæki sem hlut eiga að máli við fjárhagslega endurskipulagningu mjög skuldsettra fyrirtækja svo ekki þurfi að verða stöðvun á rekstri þeirra. Þá getur það einnig eignast hlut í viðkomandi fyrirtækjum og er þá ætlað að ráðstafa eignarhlut sínum aftur eins fljótt og markaðurinn leyfir.

Eignaumsýslufélagið kemur þó til með að verða umfangsminna en fyrst var lagt upp með, þar eð bankarnir hafa sjálfir stofnað félög utan um hluti í fyrirtækjum sem lenda í þeirra eigu. Það verður því aðeins í undantekningatilfellum sem fyrirtæki munu rata í eigu hlutafélags ríkisins.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum á aðalfundi félagsins. Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins og fer því með skipunarvaldið, en honum er einnig heimilt að framselja eignarhlutinn til Bankasýslu ríkisins. Stjórnin ræður svo framkvæmdastjóra að undangenginni auglýsingu. Framkvæmdastjóra er síðan heimilt að ráða aðra starfsmenn til félagsins. Hlutafé þess er að lágmarki tuttugu milljónir.






Tengdar fréttir

Bankasýslan mun fara með eignaumsýsluna

Bankasýsla ríkisins mun fara með hlutafélag um eignaumsýslu ríkisins, auk þess að fara með hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta er lagt til í nefndaráliti meirihluta viðskiptanefndar og umsögn efnahags- og skattanefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×