Lífið

Flottur pakki

Tónlist
Trúbrot
Trúbrot
HHHH
Trúbrot var ein af merkustu hljómsveitum íslenskrar poppsögu. Þessi heildarútgáfa sýnir að tónlist hennar þolir vel upprifjun og stendur fyrir sínu enn í dag.
Tónlist Trúbrot Trúbrot HHHH Trúbrot var ein af merkustu hljómsveitum íslenskrar poppsögu. Þessi heildarútgáfa sýnir að tónlist hennar þolir vel upprifjun og stendur fyrir sínu enn í dag.

Í ár eru liðin 40 ár síðan hljómsveitin Trúbrot steig fyrst á svið og af því tilefni hefur öllum fjórum plötum sveitarinnar verið safnað saman í viðhafnarútgáfu. Með öskjunni sem hýsir plöturnar fjórar fylgir 52 blaðsíðna bók sem rekur sögu Trúbrots í máli og myndum.

Trúbrot var ofursveit stofnuð upp úr Hljómum og Flowers. Í upphaflegri útgáfu voru Gunnar Þórðar­son, Rúnar Júlíusson, Karl J. Sighvatsson, Gunnar Jökull Hákonarson og Shady Owens, en það var nokkur hreyfing á mannaskipan og þeir Gunni og Rúnar voru einu meðlimirnir sem voru í sveitinni á öllum fjórum plötunum. Magnús Kjartansson kom inn á plötu númer tvö og var atkvæðamikill í sveitinni eftir það.

Þegar Trúbrot varð til höfðu erlendar poppsveitir verið að þróa sína tónlist yfir í flóknari og framsæknari hluti. Trúbrot var stofnuð undir áhrifum frá þeim hræringum og lagði mikinn metnað í lagasmíðar og útsetningar. Á fyrstu plötunni voru sjö lög eftir Gunnar Þórðarson og fjögur tökulög í mjög breyttum útsetningum, þeirra á meðal var útgáfa Karls J. Sighvatssonar á Pílagrímakórnum úr Tannhäuser eftir Wagner með texta eftir Þorstein Eggertsson. Sú útgáfa fór fyrir brjóstið á mörgum og siðapostular Ríkisútvarpsins gengu svo langt að rispa lagið á þeim eintökum sem stofnunin átti.

Það er margt hreint stórkostlegt á þessari fyrstu plötu Trúbrots þó að hún sé ekki fullkomin. Lagasmíðarnar eru sumar magnaðar, útsetningarnar eru flottar og það eru tilþrif í spilamennskunni, en textar Þorsteins Eggertssonar við lögin Konuþjófurinn og Afgangar sýna að sveitin var komin styttra á leið textalega heldur en tónlistarlega. Á fyrsta disknum eru líka lögin af smáskífunum tveimur sem komu í kjölfarið og eru báðar hrein snilld. Önnur platan Undir áhrifum er heilsteyptari en frumsmíðin. Textarnir eru á ensku og nú eftir hljómsveitarmeðlimi sjálfa og tónlistin er undir miklum áhrifum frá bandarískum hippasveitum eins og CSN&Y. Fín plata. Þriðja platan, hin margrómaða …lifun hefur að geyma þemaverk sem sveitin frumflutti á tónleikum í Háskólabíói í mars 1971.

Frábært verk sem stendur vel fyrir sínu enn í dag. Lokaplata Trúbrots, Mandala, er svo sísta plata sveitarinnar. Það er svolítið eins og vindurinn sé aðeins farinn úr mönnum þó að á henni séu nokkur ágæt lög.

Trúbrot var fyrsta íslenska ofursveitin og án efa ein af merkustu poppsveitum Íslands. Tvær af plötunum hennar eru í hópi hundrað bestu platna Íslandssögunnar í kosningunni sem nú fer fram á tónlist.is, fyrsta platan og …lifun. Það er ekki ofmat og í raun á Undir áhrifum alveg heima þar líka. Þó að ekkert áður óútgefið efni sé í Trúbrotsöskjunni er gott að fá þessar plötur allar saman í einum pakka og sérstaklega mikill fengur í ítarlegum sögutexta Jónatans Garðarssonar í bókinni sem fylgir.

Trausti Júlíusson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.