Innlent

Gagnrýnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins

Dögg Pálsdóttir, lögmaður og fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Dögg Pálsdóttir, lögmaður og fyrrum varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Pjetur
Dögg Pálsdóttir lögmaður sem bauð sig fram til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu alþingiskosningum, gagnrýnir flokkinn fyrir að leggja til að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Dögg Pálsdóttir bauð sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í vor en náði ekki brautargengi. Hún segir á bloggsíðu sinni í dag að Íslendingar þurfi að vita hvað sé í Evrópusambandspakkanum. Það fái þeir ekki að vita nema með aðildarviðræðum. Því fyrr sem fáist úr þessu skorið, því betra.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður flokksins hafa lagt fram breytingartillögu á Alþingi um að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu, áður en ákveið sé að fara í viðræðurnar. Dögg segir að tvöföld atkvæðagreiðsla, eins og forystumenn Sjálfstæðisflokksins leggi til sé fráleit, kostnaðarsöm tímaeyðsla. Enda valdi forysta Sjálfstæðisflokksins fjölmörgum stuðningsmönnum flokksins miklum vonbrigðum með því að kalla eftir henni.

Dögg segir að því verði ekki trúað að óreyndu að einhverjir þingmenn og þá væntanlega Sjálfstæðisflokksins,  ætli að skila auðu í þessu máli, máli sem sé meðal hinna stærstu sem komið hafi á borð Alþingis. Hjáseta sé auðvitað afstaða. Í henni felist að þingmaður styðji ekki mál en vilji þó ekki verða til að það falli.

„Ég hygg þó að kjósendur telji sig eiga rétt á því að vita afdráttarlaust hvort kjörnir fulltrúar styðji aðildarviðræður eða ekki,“ segir Dögg Pálsdóttir lögmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×