Innlent

Tafir á Helguvík skaða Orkuveituna

Orkuveita Reykjavíkur sér fram á hundruð milljóna króna kostnaðarauka vegna tafa á Helguvíkurverkefninu og rekur hluta tjónsins til aðgerða ríkisstjórnarinnar. Óvissa um Suðvesturlínur og orkuskatta veldur því að Orkuveitan getur ekki staðfest pöntun á Mitzubishi-aflvélum frá Japan og reynir nú að mæta tafakostnaði með hærra orkuverði frá Norðuráli.

Ákvæði stöðugleikasáttmálans, þess efnis að ríkisstjórnin myndi kappkosta að engar hindranir yrðu í vegi álversframkvæmda í Helguvík eftir 1. nóvember, var ekki sett inn af tilviljun. Meginástæðan er tímasetningar í samningum Norðuráls og Orkuveitu Reykjavíkur, sem áformuðu nú í nóvember að skrifa undir orkusamning vegna annars áfanga álversins, en hann kallar á framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun.

Eftir að grænt ljós fékkst í síðustu viku frá Evrópska fjárfestingabankanum telur Orkuveitan góða von um fjármögnun og frá Norðuráli fást þau svör hjá Ágústi Hafberg að fjármögnun miði ágætlega. Hann segir Norðurál hins vegar ekki treysta sér til að undirrita orkusamninginn né aðra samninga meðan óvissa er um áform ríkisstjórnarinnar um orkuskatta og hvernig umhverfisráðherra afgreiðir Suðvesturlínur.

Þetta setur Orkuveituna í vanda gagnvart samningum við Mitzibishi um kaup á aflvélum fyrir Hverahlíðarvirkjun. Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður segir að það að kaupa túrbínu í svona verk sé eins og að kaupa þotu. Það þurfi að panta ákveðið pláss í ferlinu og þegar farið sé að seinka því leiði það til kostnaðar fyrir framleiðandann að þurfa að hliðra til. Þennan tafakostnað, sem Guðlaugur segir að verði nokkur hundruð milljónir króna, þarf Orkuveitan að taka á sig.

Hluti hans er þegar áfallinn vegna tafa sem rekja má til kreppunnar en nú sjá menn fram á meiri kostnað vegna tafa sem raktar verða til aðgerða ríkisstjórnarinnar. Til að mæta tafakostnaðinum hefur Orkuveitan nú óskað eftir hærra orkuverði frá Norðuráli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×