Íslenski boltinn

Gunnlaugur Jónsson sótti þrjú stig upp á Skaga

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sævar Þór Gíslason hefur skorað níu mörk í síðustu fjórum leikjum Selfyssinga.
Sævar Þór Gíslason hefur skorað níu mörk í síðustu fjórum leikjum Selfyssinga.

Gunnlaugur Jónsson, spilandi þjálfari Selfyssinga, gerði góða ferð á kunnuglegar slóðir í kvöld en þá vann Selfoss 2-1 útisigur gegn ÍA í 1. deildinni. Eftir þennan sigur hefur Selfoss sex stiga forystu í deildinni.

Varnarleikur ÍA í upphafi leiks var ekki til útflutnings og Selfyssingar skoruðu tvö fyrstu mörkin. Það gerðu þeir Ingólfur Þórarinsson og Sævar Þór Gíslason. Andri Júlíusson minnkaði muninn fyrir Skagamenn í seinni hálfleik en þeir eru í þriðja neðsta sæti deildarinnar með tólf stig eftir leiki kvöldsins.

Víkingur Ólafsvík og Afturelding sitja í fallsætum með sjö stig. Afturelding gerði 1-1 jafntefli gegn Leiknismönnum í kvöld en Ólafur Hrannar Kristjánsson kom Breiðhyltingum yfir. Albert Ásvaldsson jafnaði síðan fyrir hlé en ekkert var skorað í seinni hálfleik.

Þá komst Víkingur Reykjavík upp í sjötta sætið með því að leggja ÍR á útivelli 4-2. Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust þremur mörkum yfir, það voru Jakob Spangsberg og Jökull Elísabetarson sem skoruðu en Jökull gerði tvö. Árni Freyr Guðnason og Guðfinnur Ómarsson minnkuðu muninn fyrir ÍR en Pétur Örn Svansson átti lokaorðið fyrir gestina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×