Erlent

FBI hafði hendur í hári Allen Stanford

Allen Stanford
Allen Stanford

Bandaríska Alríkislögreglan (FBI) fann í kvöld milljarðamæringinn Allen Stanford í Virginíu í Bandaríkjunum. Stanfords hefur verið leitað vegna meintra fjársvika og peningaþvættis. Það var talsmaður Alríkislögreglunnar sem tilkynnti þetta fyrir stundu.

Richard Kolko talsmaður Alríkislögreglunnar sagði hinsvegar að Stanford hefði ekki verið handtekinn en hann var spurður út í fjársvikin sem talin eru vera upp á allt að 8 milljarða dollara.

Fjármálaeftirlitið bandaríska hefur lagt fram kæru á hendur Stanford og tveimur samstarfsmönnum hans vegna fjársvikana. FBI rannsakar einnig hvort Stanford hafi tekið þátt í að þvætta eiturlyfjagróða. Yfirvöld gerðu áhlaup á skrifstofur Stanfords á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum í vikunni og þar var lagt hald á tölvur og gögn. Hann flúði undan lögreglu og var týndur í nokkra daga.

Íbúar í Ekvador, Kólumbíu, Mexíkó, Perú, Venesúaela og á karíbaeyjunni Antígva eru uggandi enda veldi Stanfords töluvert á þessum stöðum. Þar hefur hann komið að stofnun banka og ýmissa fyrirtækja. Áhlaup hafa verið gerð á banka sem tengjast honum af ótta við að fé verði fryst eða gufi upp. Yfirvöld í löndunum hafa heitið því að tryggja innistæður.

Viðskipti með bréf í félögum Stanfords hafa verið stöðvuð í kauphöllunum í Kólumbíu og Ekvador. Áfallið verður að mati sérfræðinga hlutfallslega mest á Antígva þar sem sextíu og níu þúsund manns búa. Eyjan er tæpir þrjú hundruð ferkílómetrar að stærð. Stanford á og rekur fjölda fyrirtækja þar og er stærsti vinnuveitandinn í einkageiranum á Antígva. Baldwin Spencer, forsætisráðherra, sagði málið geta leitt miklar hörmungar yfir eyríkið en hvatti um leið íbúa til að sýna stillingu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×