Innlent

Samkeppniseftirlit getur flýtt fyrir endurreisninni

„Ef það er vilji til að gera allt sem hægt er til að flýta efnahagsbatanum þá þarf að efla Samkeppniseftirlitið verulega til að takast á við þær aðstæður sem komnar eru upp," segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins (SE). Páll telur að fjölgun starfsmanna úr rúmlega tuttugu í þrjátíu á næstu misserum myndi gera SE kleift að takast á við öll verkefni með skilvirkum hætti.

„Við höfum ekki legið á því hversu mikilvægt það er að SE fái meira svigrúm. Við höfum kallað eftir því við fjárveitingavaldið að veita stofnuninni meira fé til að hægt sé að sinna fleiri verkefnum," segir Páll Gunnar. „Það er einfaldlega þannig í dag að við verðum að forgangsraða talsvert mikið. Þó að starfið gangi vel er ýmislegt sem við þurfum að setja aftar í röðina."

„Ég er eindregið þeirrar skoðunar að SE hafi mjög miklu hlutverki að gegna á tímum eins og við lifum núna. Jafnvel meiru en í góðu árferði því það skiptir miklu máli að endurreisn efnahagslífsins verði með þeim hætti að hér rísi atvinnulíf þar sem er virk og öflug samkeppni," segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, sem jafnframt er í leyfi sem stjórnarformaður SE á meðan hann gegnir ráðherraembætti.

Spurður hvort stofnunin sé undirmönnuð segir Gylfi að hún gæti án efa notað fleiri starfsmenn. „Þröngur fjárhagur hins opinbera gerir fjölgun hins vegar erfiða."

Gylfi telur að öflugt samkeppniseftirlit ýti undir fjölgun starfa. „Rannsóknir á kreppunni miklu í Bandaríkjunum benda til að veiking samkeppnisreglna og leyfisveitingar til stórra samruna töfðu endurreisnina og lengdu kreppuna um mörg ár." Tímabundna fjölgun starfsmanna telur Gylfi aðeins eitt af því sem kemur til greina. „Það má efla stofnunina með fjárheimildum til að kaupa sérfræðivinnu."

Páll Gunnar segir gríðarlega mikilvægt að stofnunin hafi kost á að nýta sérfræðiþekkingu utan stofnunarinnar. Verkefnin séu svo fjölbreytt og flókin. „Við höfum reynt að nýta alla þekkingu sem hægt er að draga að. Það hefur gengið vel en við þurfum meira svigrúm til þess." SE hefur í dag úr rúmlega 300 milljónum króna að spila á ári. Nýlega var farið fram á fimmtíu milljóna króna aukafjárveitingu á þessu ári.

svavar@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×