Innlent

Íslenskur prófessor frelsar breskan fanga

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ian Lawless, nýsloppinn og frelsinu feginn.
Ian Lawless, nýsloppinn og frelsinu feginn.
Skýrsla sem íslenski rannsóknarprófessorinn Gísli H. Guðjónsson vann um breska fangann Ian Lawless átti stóran þátt í því að Lawless var látinn laus úr fangelsi eftir sjö ára afplánun. Lawless var gefið að sök að hafa orðið manni, sem ranglega var grunaður um barnagirnd, að bana í Grimsby.

Lawless, sem er 47 ára gamall, hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu, en hann var handtekinn eftir að hafa stært sig af ódæðinu á krá. Sjálfur sagðist hann hafa skáldað söguna upp í ölæði.

Gísli er sérfræðingur í fölskum játningum. Hann komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn væri veikur fyrir og haldinn sjúklegri þörf fyrir athygli. Hann hefði líklegast uppdiktað grobbið af morðinu.

Lawless var í síðustu viku sýknaður af morðinu og látinn laus, meðal annars á grundvelli skýrslu Gísla. Lawless er að vonum frelsinu feginn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rannsóknir Gísla verða til þess að veita saklausum föngum frelsi, en meðal mála sem hann hefur komið að eru til dæmis mál Birmingham-sexmenninganna og Barry George.

Gísli er rannsóknarprófessor við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík, að því er kemur fram í frétt á vef háskólans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×