Innlent

Borgarstjórn samþykkti siðareglur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarstjórn samþykkti siðareglur borgarfulltrúa í dag. Mynd/ Vilhelm.
Borgarstjórn samþykkti siðareglur borgarfulltrúa í dag. Mynd/ Vilhelm.
Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg á fundi sínum í dag. Borgarfulltrúar allra flokka að frátöldum Ólafi F. Magnússyni greiddu siðareglunum atkvæði sitt og skrifuðu undir þær á fundinum.

Í tilkynningu frá borgarstjórn kemur fram að markmið reglnanna sé að skrá og skilgreina þá háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilji sýna af sér við öll sín störf. Í þeim sé m.a. fjallað um starfsskyldur kjörinna fulltrúa, valdmörk, hagsmunaárekstra, gjafir, fríðindi og trúnað. Með undirskrift sinni undirgangast fulltrúarnir siðareglurnar og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi í störfum sínum fyrir Reykjavíkurborg.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, minnti á að siðareglurnar væru safn leikreglna sem ætlað væri að festa í sessi öguð og vönduð vinnubrögð, eyða tortryggni og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.

Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir að mikilvægt sé að sveitarstjórnarlögum verði breytt í framhaldinu og sameiginleg siðanefnd stofnuð á vettvangi Sambands sveitarfélaga. Þá sé mikilvægt að reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum og fleiru sem nú verði sendar til forsætisnefndar verði staðfestar á vettvangi borgarstjórnar, eins fljótt og kostur sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×