Lífið

Boðið á námskeið

Leiklist Ólafur Darri Ólafsson er meðal þeirra sem leiðbeina á opnum námskeiðum Þjóðleikhússins fyrir atvinnulausa.
Leiklist Ólafur Darri Ólafsson er meðal þeirra sem leiðbeina á opnum námskeiðum Þjóðleikhússins fyrir atvinnulausa.

Þjóðleikhúsið hefur frá upphafi hrunsins sýnt markverða viðleitni til að sinna þeim sem misst hafa atvinnu. Leikhúsið bauð atvinnulausum snemma upp á sérstök kjör á miðum og nú bætir það um betur með opnum námskeiðum fyrir atvinnulausa: dagana 12.-13. maí næstkomandi. Leikarar Þjóðleikhússins munu leiða tvö stutt námskeið sem hafa það helst að markmiði að gleðja sálina, efla jákvætt hugarfar og næra andann.

Námskeið þessi hafa þegar verið kynnt hjá Vinnumálastofnun og félagasamtökum og er næsta fullt á þau bæði.

Meðal leiðbeinenda á námskeiðunum verða leikararnir Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Ólafur Egill Egilsson.

Á fyrra námskeiðinu, Njóttu sýningarinnar – leikhúslæsi, sem haldið verður þriðjudaginn 12. maí, kl. 13-16, er leikhúsformið kynnt lag fyrir lag fyrir þátttakendum. Þeir fá einstaka innsýn í vinnuaðferðir leikhúslistafólks og læra aðferðir sem skerpa sýn á það sem fyrir augu ber á leiksýningum.

Innifalin er kynnisferð um leikhúsið baksviðs. Í boði verður einnig leikhúsferð á Hart í bak hinn 15. maí og umræður að lokinni sýningu.

Síðara námskeiðið verður miðvikudaginn 13. maí, kl. 13-16, og endar á leikhúsferð föstudagskvöldið 15. maí.

Þar verður stofnað til vinnusmiðju með landsþekktum leikurum, þar sem áherslan er á að efla kjark og jákvæðni í gegnum skemmtilegar leiklistaræfingar. Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu og henta fólki á öllum aldri. Fjöldatakmarkanir eru á námskeiðin en áhugasömum er bent á að hafa samband við Vigdísi Jakobsdóttur, forstöðumann fræðsludeildar Þjóðleikhússins, vigdis@leikhusid.is, s. 585 1200.

- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.