Innlent

Tillögurnar eru stríðsyfirlýsing Árna Páls

Þær tillögur sem félagsmálaráðherra kynnti í síðustu viku um aðgerðir til leiðréttingar greiðslubyrði og aðlögun skulda eru stríðsyfirlýsing en ekki sáttargerð, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samtökin virða þann vilja Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, að stuðla tímabundinni almennri lækkun greiðslubyrði lána, en telja að ólíklegt sé að fyrirheit um mögulega leiðréttingu og afskrift í lok lánstímans standist. „Tenging greiðslubyrði við greiðslujöfnunarvísitölu er lymskuleg aðferð til að tryggja að lánveitendur tapi engu. Það sem meira er, heildargreiðslubyrði mun aukast umtalsvert," segir í tilkynningu frá Hagmunasamtökum heimilanna.

Samtökin telja að með tillögunum hafi Árni Páll staðfest að í landinu gildi tvenn lög. Lög fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja og lög skuldara.

„Samtökin sjá ekki að tillögur ráðherra uppfylli á nokkurn hátt, þau markmið sem sett eru fram í kynningarefni ráðherrans, svo sem að leiðrétta misgengi lána, launa, verðlags og gengis krónunnar, að eyða óvissu, að gæta jafnræðis, hófsemi og sanngirni og að stuðla að sátt í samfélaginu. Tillögurnar eru stríðsyfirlýsing, ekki sáttargerð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×