Innlent

Áfall fyrir áform stjórnvalda um endurreisn

Synjun Evrópska fjárfestingarbankans á láni til virkjanaframkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur er áfall fyrir áform stjórnvalda um endurreisn efnahagslífsins, að mati stjórnarformanns Orkuveitunnar. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hins vegar að Orkuveitan megi ekki láta máta sig; - hún verði að leita lána annarsstaðar.

Orkuveitan áformaði að hefja eftir áramót framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun á Hellisheiði til að mæta orkuþörf fyrir annan áfanga álvers Norðuráls í Helguvík. Evrópski fjárfestingarbankinn tilkynnti hins vegar í vikunni að hann myndi ekki afgreiða 30 milljarða króna lán til verkefnisins vegna óvissu í efnahagsmálum Íslands.

Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir að þessi synjun sé ekki síst slæm vegna þess að ein af forsendum nýgerðs stöðugleikasáttmála hafi verið sú að orkuframkvæmdir hæfust.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þótt í þessu tafli sé nú búið að segja skák á Orkuveituna megi hún ekki láta máta sig. Menn megi ekki gefast upp heldur verði að leita lána annarsstaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×