Innlent

Rúv þarf að skera niður um 400 milljónir

Segja þarf upp 30 manns hjá RÚV ef niðurskurðarhnífnum verður eingöngu beint að launakostnaði. Ríkisútvarpið þarf að skera niður um rúmar 400 milljónir á komandi ári.

Ríkið ætlar að halda eftir 10% af nefskatti og verða tekjur Ríkisútvarpsins þar með 360 milljónum króna lægri á næsta ári en gert var ráð fyrir. Því til viðbótar þarf RÚV, líkt og önnur fyrirtæki í landinu, að mæta hækkun á tryggingargjaldi. Í heildina verður afkoma RÚV 420 milljónum króna verri en áætlanir gerðu ráð fyrir - og brúa þarf það bil. Með öðrum orðum skera niður um rúmar 400 milljónir.

Útvarpsstjóri ætlar að kynna aðgerðir til að mæta breyttu umhverfi í janúar.

Samkvæmt yfirlýsingu sem félag fréttamanna sendi frá sér í byrjun desember eru heildarlaun fréttamanna á RÚV að meðaltali 435 þúsund krónur á mánuði. Ef mæta á niðurskurðinum með fækkun starfsfólks þýðir það að miklar uppsagnir eru framundan.

Útvarpsstjóri lét þau orð falla á starfsmannafundi fyrir skömmu að segja þyrfti upp 30 manns ef niðurskurðinum yrði eingöngu beint að launakostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×