Innlent

Ekkert ákveðið um yfirtöku á myntkörfulánum

MYND/AP

Til greina kemur að íbúðalánasjóður yfirtaki erlend íbúðalán á því gengi sem var í gildi þegar þau voru tekin. Þessi lausn er nú í skoðun hjá félagsmálaráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum.

Hrun krónunnar hefur margfaldað greiðslubyrði þeirra heimila sem eru með myntkörfulán. Á einu ári hefur Evran þannig farið úr 90 krónum í 167 og japanskt jen úr 50 aurum í 1,3 krónur samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans.

Myntkörfulán hafa þannig tvöfaldast á aðeins skömmum tíma.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að ákveðið hafi verið að íbúðalánsjóður yfirtaki myntkörfulán og breyti þeim í venjuleg íslensk verðtryggð íbúðalán. Ennfremur er til skoðuna að lánin verði yfirtekin á svipuðu gengi og var þegar þau voru tekin.

Unnið er að þessari lausn í félagsmálaráðuneytinu og viðskiptaráðuneytinu.

Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu eru þessar hugmyndir í skoðun, líkt og margar aðrar, en hins vegar hafi ekkert verið ákveðið.

Ekki fengust upplýsingar um það hvort svipaðar hugmyndir væru í gangi varðandi verðtryggð íbúðalán það er að segja hvort til greina kemur að setja þak á verðtrygginguna með einhverjum hætti.

Erlend íbúðalán íslenskra heimila námu rúmlega eitt hundrað milljörðum í lok síðasta árs samkvæmt tölum seðlbankans. Ekki liggur fyrir hversu mikið þessi yfirtaka myntkörfulána kann að kosta íslenska ríkið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×