Innlent

Breytingar í heilbrigðiskerfinu: Ánægja í Ólafsvík

Ólafsvík.
Ólafsvík.

Breytingar í heilbrigðiskerfinu sem kynntar voru af Guðlaugi Þór Þórðarsyni í fyrradag hafa vakið mikið umtal og nokkuð hörð viðbrögð hjá starfsfólki í heilbrigðisgeiranum. Þó eru ekki allir á móti hugmyndunum því á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins er greint frá mikilli ánægju í Ólafsvík með þær breytingar sem snúa að Vesturlandi.

Í ályktun frá starfsfólki á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík kemur fram að fyrirhuguð sameining heilbrigðisstofnana á Vesturlandi skapi sóknarfæri til að þróa heilsugæsluna. „Starfsfólk Heilsugæslustöðvar Ólafsvíkur fagnar þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að sameina átta stofnanir í Heilbrigðisstofnun Vesturlands í stað fimm eins og áður var áætlað. Þetta skapar sóknarfæri til þróunar heilsugæslunnar í Snæfellsbæ í samvinnu við öflugt sjúkrahús á Akranesi. Við fögnum þeim möguleikum sem þetta skapar og væntum þátttöku í því starfi sem framundan er," segir einnig í ályktuninni.

Breytingarnar á Vesturlandi gera ráð fyrir því að allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á svæðinu verði sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×