Lífið

Íslenskt stóðlíf í Belgíu

Tökulið belgíska ríkissjónvarpsins vildi kynnast öllum hliðum íslenska hestsins um helgina.    
                   Fréttablaðið/Arnþór
Tökulið belgíska ríkissjónvarpsins vildi kynnast öllum hliðum íslenska hestsins um helgina. Fréttablaðið/Arnþór

Belgíska ríkissjónvarpið var hér á landi um helgina við að mynda heimildarþátt um íslenska hestinn. Íshestar, Icelandair, Ferðamálastofa og utanríkisráðuneytið koma auk Belga að þættinum. Þátturinn fjallar um dýralíf í hinum ýmsu löndum og er sýndur á besta tíma.

Tökuliðið var hér á landi yfir helgina, en þáttastjórnandinn var leiddur í hestaferð af Svandísi Dóru Einarsdóttur, leikaranema og hestaleiðsögumanni hjá Íshestum. Farið var að Kjóastöðum og á Þóroddsstaði og fékk tökuliðið að kynnast íslenska hestinum í fyrsta sinn. Fréttablaðið heyrði í Einari Bollasyni, framkvæmdastjóri Íshesta, fyrir helgi. Hann bjóst við að margt myndi koma belgíska tökuliðinu á óvart, af reynslu sinni af erlendu sjónvarpsfólki.

„Þau gera sér enga grein fyrir hversu mikill snillingur íslenski hesturinn er. Fólk bara trúir þessu ekki þegar það fer að kynnast kostum íslenska hestsins. Það verður alveg bergnumið. Þau lögðu líka mikla áherslu á það að vera í tengslum við íslensku sauðkindina. Nú eru öll nýfæddu lömbin að hlaupa um grundir og haga, þannig að það ber vel í veiði.“

Einnig var farið á hrossaræktar­bú. „Það er nú ekkert af verri endanum, það eru sjálfir Þóroddsstaðir í Grímsnesi, þar sem einn frægasti stóðhestur landsins, Þóroddur, er til húsa.“

Hann segir belgíska sjónvarpið mjög spennt fyrir undaneldi íslenska hestsins. „Við erum að vona að þau fái einhverja sýningu á Þóroddsstöðum. Þau báðu alveg sérstaklega um að þau gætu myndað einhvern góðan stóðhest „in action“. Við vonum bara að það standi vel á hjá Þóroddi.“

Einar treystir því að þátturinn verði góð landkynning. „Þetta er mjög mikilvægt, ekki bara fyrir íslenska hestinn heldur landið. Belgía er land sem ekki hefur verið ofarlega á listum yfir erlenda ferðamenn.“

kbs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.