Innlent

Nauðgunum á skemmtistöðum hefur fjölgað

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra.
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra. Mynd/Stefán
Hópnauðgunum og nauðgunum á skemmtistöðum fer fjölgandi hér á landi. Meiri en þriðjungur þeirra sem leita til Neyðarmóttöku vegna nauðgana eru 18 ára og yngri, eða 37%. Þetta kemur fram í svari Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur, þingmanns Samfylkingar.

Í svarinu segir að efla þurfi þá mikilvægu starfsemi sem fer fram á Neyðarmóttökunni. Fram til ársins 2009 höfðu 1684 einstaklingar leitað til Neyðarmóttökunnar. Flestir komu 2006, 145 einstaklingar, 2007 komu 136 og 2008 leituðu 118 einstaklingar til Neyðarmóttökunnar. Það sem af er árinu 2009 hafa um 110 leitað á móttökuna.

Heilbrigðisráðherra ætlar að beita sér fyrir því að boðaðar niðurskurður í heilbrigðiskerfinu komi ekki niður á Neyðarmóttökunni. „Niðurskurð í heilbrigðisþjónustu sem samkvæmt leiðarljósum ríkisstjórnarinnar má ekki bitna á þeim sem veikastir eru fyrir, þar á meðal konum og börnum, sem eru samkvæmt skráningum helstu þolendur kynferðisofbeldis."

Bráðaþjónustu fyrir þolendur mansals

Þá kemur fram í svari Álfheiðar að Neyðarmóttakan gegni mikilvægu hlutverki í baráttunni við mansal og vændi og að sú sérhæfing og sérfræðiþekking sem þar hefur verið byggð upp verði nýtt til hins ýtrasta í baráttunni gegn mansali. Mikilvægt sé að koma upp móttöku og bráðaþjónustu fyrir þolendur mansals.

„Flestar konur sem seldar eru mansali lenda í kynlífsþrælkun og eru neyddar til að stunda vændi. Neyðarmóttakan mun gegna lykilhlutverki í aðkomu heilbrigðisþjónustunnar að þessum málaflokki sökum sérfræðiþekkingar á kynferðislegu ofbeldi og reynslu af móttöku og stuðningi við þolendur slíkra glæpa," segir í svari Álfheiðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×