Innlent

Seljendur kvóta fá leyfi til strandveiða

smábátar Strandveiðar voru hugsaðar sem frjálsar veiðar til að efla atvinnu í sjávarbyggðum landsins og stuðla að nýliðun í greininni.
smábátar Strandveiðar voru hugsaðar sem frjálsar veiðar til að efla atvinnu í sjávarbyggðum landsins og stuðla að nýliðun í greininni.

Margir þeirra sem hafa fengið leyfi til strandveiða eru gamlir eigendur kvóta. Hafa þeir selt kvótann sinn, haldið skipunum, veiðarfærum og öðru og hafa nú fengið leyfi til strandveiða, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Nokkuð er um það að menn reki jafnvel tvo báta til strandveiða. Einnig eru dæmi þess að menn sem eiga lítinn kvóta hafi veitt veiðiskyldu sína í vor, fengið leyfi til strandveiða og leigi nú út kvótann sinn. Markmið strandveiða var meðal annars að auka nýliðun í greininni.

Örn Pálsson

Halldór Ármannsson, formaður smábátaeigenda á Reykjanesi, og kvótaeigandi, sem Fréttablaðið hafði samband við, hefur keypt kvóta fyrir nokkra tugi milljóna á undanförnum árum. Nú hafa einhverjir seljendur kvótans fengið leyfi til strandveiða og keppa við Halldór á miðunum.

„Auðvitað er þetta svekkjandi að lenda í þessu en það þýðir ekkert fyrir mig að vera fúll út af þessu,“ segir Halldór sem segist stuðningsmaður strandveiðikerfisins þrátt fyrir þetta.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir sambandið hafa fengið nokkrar ábendingar varðandi það að gamlir kvótaeigendur séu á strandveiðum.

„Það er algengast að þeir sem selja frá sér kvóta haldi bátunum og þessir aðilar hafa örugglega farið inn í strandveiðikerfið,“ segir Örn.

Um 400 bátar hafa leyfi til strandveiða þó að skilyrðin séu ströng. Hafa þarf tilskilin réttindi og bát í haffæru ástandi. Töluverður kostnaður fylgir því að fá leyfi til strandveiða ef maður er nýr í greininni, að sögn Arnar. Því sé lítið um nýliða að veiðum.

friðrik j. arngrímsson

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), segir sambandið hafa fengið ábendingar vegna þessa. „Ég held að þetta sé í gangi. Þetta var ljóst frá upphafi og eitt af því sem við bentum á varðandi þessar strandveiðar.“

Frá og með fimmtudeginum verða strandveiðar á svæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Skagabyggðar, bannaðar. Líklegt þótti að viðmiðunaraflinn yrði uppurinn um miðja þessa viku.

Gefið var út leyfi til strandveiða í lok júní. Kvótinn var samtals tæplega 4.000 tonn yfir sumartímann en nú þegar hafa veiðst um 1.140 tonn. Mest hefur veiðst á svæði A, um 750 tonn.

Ekki náðist í Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra vegna málsins.

vidirp@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×