Innlent

Lúðvík og Guðlaugur funduðu um St. Jósefsspítala

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjórinn í Hafnarfirði funduðu um Sánkti Jósefsspítala í dag og eru sammála um að skoða verði alla heilbrigðisþjónustuna í bænum í samhengi. Bæjarstjórinn segir spítalann mikilvægan í almennri heilbrigðisþjónustu í bænum.

Heilbrigðisráðherra segir að nú sé hafið ákveðið samráðsferli við forráðamenn stofnana og hlustað verði eftir sjónarmiðum þeirra. Mikilvægt sé að ekki sé vikið frá meginmarkmiðum aðgerða stjórnvalda, en þær miði m.a. að því að sveitarfélögin taki ríkari þátt í heilbrigðisþjónustinni.

,,Það er alltaf von þegar menn tala saman," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, aðspurður hvort hægt sé að að breyta ákvörðun heilbrigðisráðherra. Lúðvík segir vilja vera til að fara heilstætt yfir málið.

Spurningin gæti því verið sú hvort bærinn og ráðherrann nái saman um aukna aðkomu bæjarins að rekstri spítalans og hvernig þjónustan í heild verði skipulögð til framtíðar.

Fyllyrt hefur verið að húsakostur St. Jósefsspítala sé slæmur. Lúðvík segist ekki kannast við það og fullyrði að það hafi ekki háð starfsemi spítalans hingað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×