Innlent

Greitt fyrir umferð með fjölda aðgerða

Borgarstjórinn í Reykjavík og vegamálastjóri undirrituðu fyrr í mánuðinum samkomulag um vegbætur í Reykjavík. Samkvæmt því á að fara í fjölda aðgerða sem munu auka umferðarflæði og bæta umferðaröryggi. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir samkomulagið dæmi um það hve hægt er að áorka miklu án þess að fara í stórar framkvæmdir.

„Þetta eru lagfæringar sem virðast ekki stórar en þegar saman er komið skipta þær miklu máli. Við höfum átt mjög ánægjulegt samstarf við samgönguráðuneytið og Vegagerðina og þetta felur í sér mörg framfaraskref í samgöngumálum fyrir Reykvíkinga."

Reiknað er með að öll verkin verði unnin á árinu 2009. Einkum er um að ræða úrbætur á fjölförnum gatnamótum ásamt sérstökum aðgerðum til að greiða fyrir almenningssamgöngum og umferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Þá eiga aðgerðirnar að auka umferðaröryggi. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er um 460 milljónir króna. Þar af er hlutur Reykjavíkur 140 milljónir en Vegagerðarinnar 320 milljónir króna.kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×