Innlent

Tólf prósent atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar

Tólf prósent þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur eru erlendir ríkisborgarar. Persónuvernd hefur úrskurðað að neteftirlit Vinnumálastofnunar sé lögmætt, en Vinnumálastofnun skoðar sérstaklega ip-tölur þeirra sem þiggja bætur.

Af þeim 15.017 sem skráðir eru á atvinnuleysisskrá eru 1.831 erlendur ríkisborgari, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun sem miðast við lok nóvember. Langflestir þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá þiggja atvinnuleysisbætur og því eru 12 prósent þeirra sem þiggja bætur erlendis ríkisborgarar. Langflestir þeirra eru einstaklingar í byggingariðnaði, verksmiðjustörfum og ýmsum ófaglærðum störfum. Langstærstur hluti þeirra er Pólverjar, eða 1.170 af 1.831.

Til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þurfa menn að hafa dvalið hér við vinnu í að minnsta kosti ár, að loknum þeim tíma geta menn að hámarki þegið atvinnuleysisbætur í þrjú ár og þurfa að sýna fram á að þeir séu raunverulega að leita sér að vinnu og að hafi ekki hafnað atvinnutilboðum.

Þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur þurfa með reglulegu millibili að stimpla sig inn á vef Vinnumálastofnunar. Þar fylgist stofnunin með IP-tölum þeirra sem skrá sig inn, þ.e í hvaða landi þeir eru staddir er skráning er send, en þeir sem staddir eru erlendis eru ekki taldir í virkri atvinnuleit hér á landi og geta því ekki átt rétt á bótum. Þetta eftirlit var kært til Persónuverndar sem hinn 16. desember síðastliðinn úrskurðaði að þetta væri lögmæt meðferð persónuupplýsinga og rúmaðist innan reglna um persónuvernd. Þetta þjónaði jafnframt lögmætum tilgangi Vinnumálastofnunar og væri eðlilegur þáttur í eftirliti hennar.


Tengdar fréttir

Vinnumálastofnun fylgist með IP-tölum atvinnulausra

Persónuvernd hefur samþykkt að Vinnumálastofnun fylgist með IP-tölum þeirra sem staðfesta atvinnuleysisskráningu í gegnum heimasíðu stofnunarinnar. Þannig fylgist stofnunin með því hvort tilkynningar berast frá erlendum IP-tölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×