Innlent

Hámarksfjárhæð verði hækkuð

Af rúmlega 150.000 eigendum séreignarsparnaðar hafa 39.000 fengið hann greiddan út á árinu, allt að eina milljón króna hver.
fréttablaðið/hari
Af rúmlega 150.000 eigendum séreignarsparnaðar hafa 39.000 fengið hann greiddan út á árinu, allt að eina milljón króna hver. fréttablaðið/hari

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að til greina komi að framlengja þann tíma sem fólk eigi kost á að fá séreignarsparnað sinn greiddan út og hækka þá hámarksfjárhæð sem fólk geti tekið út.

Um 39.000 manns hafa nýtt sér heimild sem samþykkt var í mars á þessu ári til að taka út allt að eina milljón króna af séreignarsparnaði sínum á tólf mánaða tímabili. Heildargreiðslan nemur 21,6 milljörðum króna á árinu.

Frestur til að sækja um heimildina rennur út 1. október á næsta ári. Áætlað var að heildarútgreiðsla á þeim tíma gæti numið 40 til 50 milljörðum króna.

Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi á miðvikudag.

Steinunn spurði hvort ráðherrann vildi beita sér fyrir því að framlengja heimildina og svaraði Steingrímur játandi; til greina kæmi að framlengja umsóknartímann, hækka heildarfjárhæðina eða lengja þann tíma sem dreifa mætti greiðslunum á.

Rúmlega 150.000 manns eiga séreignarsparnað í lífeyrissjóðum, þannig að um fjórðungur þeirra hefur fengið endurgreitt.

Steingrímur sagði að tekjuauki ríkis og sveitarfélaga vegna aukinna skatta af þessu væri um átta milljarðar króna á þessu ári. Ríkið hefði nýtt um þrjá milljarða af þeim 5,2 milljörðum sem runnu til þess í það að hækka vaxtabætur í ágúst á þessu ári.

Um 16.000 af þeim sem tekið hafa út séreignarsparnað eru viðskiptavinir Nýja Kaupþings. Berghildur Erla Bernharðsdóttir upplýsingafulltrúi segir að bankinn telji ekkert því til fyrirstöðu að framlengja tímann sem sjóð­félagar geta óskað eftir fyrirframgreiðslum úr séreignasjóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×