Innlent

Ekki fleiri arnarhreiður í heila öld

Beðið er í ofvæni eftir unganum.
Beðið er í ofvæni eftir unganum.
Þúsundir manna bíða þess nú í ofvæni að hafarnarungi skríði úr eggi sínu í beinni útsendingu frá arnarhreiðri í eyju á Breiðafirði, engir þó spenntari en bóndahjónin sem beittu sér fyrir því að setja upp myndavélina. 44 hafarnarpör urpu hérlendis í vor og hafa hreiðrin ekki verið fleiri síðan árið 1910.

Hjónin á Gróustöðum við Gilsfjörð, þau Bergsveinn Reynisson og Signý M. Jónsdóttir, stofnuðu Arnarsetur Íslands í fyrra og eitt fyrsta verkið var að fá leyfi til að setja upp vefmyndavél við arnarhreiður. Útsending hófst fyrir mánuði og hafa allt upp í fimmþúsund manns verið samtímis inni á síðunni að fylgjast með össunni.

En nú fer hreiðrið virkilega að verða spennandi því unginn er við það að skríða úr egginu. Ekki er gefið upp hvar hreiðrið er nema að það er í eyju á Breiðafirði. Signý telur enga hættu á að myndavélin trufli örninn og hann hafi ekkert skipt sér af henni.

Með framtakinu vonast þau til að draga fleiri ferðamenn í Reykhólasveit enda sé þetta ríki hafarnarins, þarna sé mesta arnabyggð á landinu.

Vitað er um 44 arnarhreiður sem orpið var í á landinu í vor, samkvæmt upplýsingum Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun, og hafa þau ekki verið fleiri í heila öld en einu sinni jafnmörg, árið 2004. Ernir verpa enn nær eingöngu á vestanverðu landinu, en útbreiðslusvæðið er nú farið að teygja sig inn á Húnaflóa.

Á Gróustöðum eru kanínurnar í hættu en örninn hefur sést taka þær á flugi úr túninu á bænum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×