Innlent

Undirskriftir gegn sorpi á Suðurlandi

Þetta er meðal þess sem íbúar í nágrenni sorpurðunarstaðarins í Kirkjuferjuhjáleigu vilja losna við úr umhverfinu.
Þetta er meðal þess sem íbúar í nágrenni sorpurðunarstaðarins í Kirkjuferjuhjáleigu vilja losna við úr umhverfinu.

Íbúar í nágrenni sorpurðunarstaðar Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferju­hjáleigu hafa hafið undirskriftasöfnun gegn framlengingu starfsleyfis stöðvarinnar á umræddu svæði. Undirskriftirnar verða sendar Umhverfisstofnun.

Nú liggur fyrir tillaga að starfsleyfi fyrir sorpstöðina. Hún gerir ráð fyrir að leyfi verði veitt til urðunar á sorpi í Kirkjuferjuhjáleigu næstu sextán árin. Magnið sem urða má á ári er 30 þúsund tonn og því væri verið með samþykkt tillögunnar að veita heimild til urðunar á 480 þúsund tonnum sorps.

„Við íbúar í næsta nágrenni Sorpstöðvar Suðurlands mótmælum harðlega því að veitt sé starfsleyfi til lengri tíma en til 01.12.2009 og þeim yfirgangi gagnvart okkur sem felst í tillögunni“, segir meðal annars í athugasemdum íbúanna, en 1. desember næstkomandi rennur leyfið út.

Íbúarnir benda á að sorpstöðin hafi margbrotið gildandi deiliskipulag frá 1993.

„Engin hæðamörk deiliskipulagsins hafa verið virt og ljóst er að það magn sorps sem þegar er komið á svæðið er langt umfram það sem skipulagið gerir ráð fyrir…“

Þá minna íbúarnir á nálægð sorpstöðvarinnar við laxveiðiá, blómleg landbúnaðarhéruð, útivistarparadís og þéttbýli og áhrif hugsanlegrar mengunar þar á.

Loks benda þeir á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi kveðið á um að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðisins þar sem þar hafi verið framkvæmt í ósamræmi við skipulag, fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð og starfsemi hætt.

Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri í sveitarfélaginu Ölfusi, segir að áætlanir hefðu verið uppi um að Vesturland, höfuðborgarsvæðið, Reykjanes og Suðurland yrðu saman í einu sorpsamlagi. Komið yrði á fót flokkunar- og umhleðslustöð sorps á Suðurlandi. Þessi áætlun væri nú úr myndinni þar sem tillaga þar um hefði nýverið verið felld á aukaaðalfundi í Sorpstöð Suðurlands.

Hins vegar hefði á fundinum verið ákveðið að stofna starfshóp sem yrði skipaður fulltrúa hvers aðildarfélags Sorpstöðvar Suðurlands. Hann skuli leita staðsetningar fyrir nýjan urðunarstað í stað Kirkjuferjuhjáleigu.

„Eftir að mál hafa skipast svona þarf að finna nýjan urðunarstað,“ segir Ólafur Áki. „Kirkjuferjuhjáleiga er ekki inni í myndinni því ég tel að ekki sé pólitískur vilji fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×