Innlent

Aðstoða fólk án endurgjalds

Hluti hópsins sem býður þeim sem á þurfa að halda hjálp án endurgjalds.
Hluti hópsins sem býður þeim sem á þurfa að halda hjálp án endurgjalds.

Tíu manna hópur á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið sig saman og býður þeim sem á þurfa að halda ókeypis aðstoð. Um er að ræða innkaup, gluggaþvott, reiðhjólaviðgerðir, garðahreinsun, matreiðslu og fataviðgerðir.

„Við ætlum þessa aðstoð fyrir þá sem þurfa á henni að halda,“ segir Vigdís Linda Jack sjúkraliði, ein úr hópnum. „Okkur langaði til að gera eitthvað gott í þessu þjóðfélagi og bæta Ísland,“ svarar hún spurð um ástæður sjálfboðavinnunnar. „Við ákváðum að gera þetta á hverjum sunnudegi út júní og vorum alveg á haus í verkefnum síðastliðinn sunnudag.

Næstkomandi sunnudag förum við aftur á stúfana og mér sýnist við einkum verða að þvo glugga og taka til í görðum.“

Vigdís Linda segir að hópurinn hyggist einnig bjóða upp á ókeypis námskeið á næstunni. „Þar verður kennd spænska, enska, garðyrkja, matreiðsla og fleira,“ útskýrir hún. Verið er að skipuleggja umrædd námskeið og gert er ráð fyrir að þau verði í ágúst.

„Hjálparstarfið er mjög skemmtilegt og gefandi og fólk er mjög þakklátt,“ segir Vigdís Linda. „Það er einkum eldra fólk sem biður um aðstoð vegna þess að það getur ekki gert hlutina sjálft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×