Innlent

Fara eftir settum reglum

Ólafur Teitur Guðnason
Ólafur Teitur Guðnason

„Við höfum hagað okkar málum á sama hátt og við höfum alltaf gert,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Alcan á Íslandi. Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær kom fram að Fjármálaeftirlitið (FME) ætli að rannsaka álfyrirtækin sérstaklega til að kanna hvort þau hafi á einhvern hátt brotið lög um gjaldeyrisviðskipti. Ólafur neitar því alfarið að Alcan hafi á einhvern hátt farið framhjá þeim gjaldeyrishöftum sem sett voru í vetur.

Hann segir einnig að Alcan hafi fengið staðfestingu frá Seðlabanka Íslands í janúar síðastliðinn um að þeirra viðskipti séu eftir settum reglum.

Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri samskipta hjá Norðuráli, tekur í sama streng. Hann segir fyrirtækið hafa haldið sig í sama farvegi og engin stórbreyting hafi orðið á þeirra viðskiptaháttum. Ágúst segir einnig að fulltrúar Norðuráls hafi fundað með Seðlabankanum rétt fyrir áramót þar sem þeir hafi fengið leiðbeiningar um hvernig þeir eigi að haga sínum gjaldeyrisviðskiptum.

Hvorki Ágúst né Ólafur hafa heyrt um fyrirhugaða rannsókn FME. Þess ber að geta að öll álfyrirtæki á Íslandi eru undanþegin nýlegum reglum um gjaldeyrisviðskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×